mánudagur, 27. maí 2013

Það er dýrt að vera kona

Í morgun fór ég út í búð til þess að kaupa dömubindi. Ég krækti mér í 500kr og gerði bara ráð fyrir því að það væri nóg. Þegar í búðina var komið þá sá ég að dömubindið kostaði 674kr! Og það var það ódýrasta sem var á hillunni. Ég hélt aftur heim til að ná í meiri pening og fór að spá í hvað svona hlutir (sem að ég tel til nauðsynja) eru dýrir. Hrikalega græðir fólk á okkur! Ég valdi ekki að vera kona, ég valdi ekki að byrja á túr, en samt þarf ég að borga stórfjár til að passa upp á það að þetta fer ekki út um allt!
Þessi dömubindi (bleikur Libresse pakki með 14 bindum í) eru á ódýrari kantinum miðað við t.d. Always bindin. Náttúrulega er hægt að fá svona euroshopper bindi í Hagkaup og öðrum stöðum líka og er það líklegast ódýrasta bindið sem er til.
Hinsvegar fór ég líka að pæla í öðrum hlutum sem að kosta alveg heilann helling; brjóstahaldarar. Náttúrulega er þetta eitthvað sem við konur ákveðum að nota en þetta er líka svo innbyggt í okkar samfélag að við verðum að nota þá af því að brjóstin okkar mega ekki sjást. Nema fyrir þær sem gætu mögulega fengið bakverki vegna stærðar á brjóstum. Þrátt fyrir að flestar konur nota þetta, og ef að ég miða við sjálfan mig að mér finnst alveg voðalega óþægilegt að vera ekki í einum, þá kosta þeir alveg fáránlega mikið! Ég man ég fékk mína fyrstu brjóstarhaldara frekar ódýra í Debenhams fyrst að þeir voru tveir saman og eitthver sérstakur díll á þeim. Svo þarf maður heldur ekki að nefna gallanna með brjóstarhaldara! Það er ekki gert ráð fyrir því að konur geta verið með breiðann brjóstkassa og lítil brjóst, eða stór brjóst og mjóann brjóstkassa. Ef að ummálið stækkar þá stækka skálarnar líka.
Mér finnst þetta stærðarinnar galli á þessari vöru og sá ég fyrir nokkru hugmynd hjá einni stelpu á netinu að búa til einskonar Build-a-bra búð, eins og er til fyrir bangsa og önnur leikföng. Mér fannst þetta algjör snilldar hugmynd og fór að pæla aðeins meira í þessu. Ef að við gætum búið til okkar eigin brjóstarhaldara þá væri þetta ekki eins mikið vandamál, bæði yrðu þeir þá ódýrari og eins og við viljum hafa þá, í stærð og útliti.

Ekki nóg með allt þetta en þá er samfélagið alltaf að reyna að segja okkur að við eigum að vera fullkomnar. Þetta er það sem er búist við af okkur konum. Við megum ekki gera neitt "rangt" samkvæmt samfélaginu og ef við gerum það fáum við uppnefni eins og hóra, tík, tuska, og fleira. Oft hef ég hugsað um hvað það er sem að við "megum" gera, og áður fyrr þá samþykkti ég þetta allt saman bara af því að ég var of ung til þess að halda að heimurinn væri að ljúga að mér.
Hinsvegar breyttist mín sýn á heiminum þegar ég fór að fræði mig aðeins meira um hann. Ég fræddi mig um samkynhneigð, nauðganir, mannréttindi og óréttlæti. Á meðal annars. Ég man þegar að ég las um það í blaðinu einhverntímann um að stelpa var nauðguð og kom það fram að hún hafði verið í stuttu pilsi og fleygnum bol. Ég man eftir því að mér fannst þetta alveg rökrétt að þurfa að nefna það, að taka það fram að það gæti nú alveg verið smá henni að kenna útaf klæðnaði. Núna veit ég betur.
Ég hrylli mig yfir því hve margir halda ennþá að þetta sé rökrétt að halda að nauðgun gæti verið fórnarlambinu að kenna og hve margir (sérstaklega karlmenn en einhverjar konur líka) nota orðið "nauðgun" í vitlausri merkinu og/eða segja að þau myndu nauðga einhverjum. Þetta er ekki eitthvað til að grínast með. Ég sá á netinu um daginn mynd af stelpu sem svaf í rúmi, hún leit mjög friðsamlega út. Undir myndinni stóð: ef að þið sæuð þetta inn í herberginu ykkar, hvað mynduð þið gera? Þetta hafði verið sett á facebook og marg-þúsund karlmenn höfðu commentað við hana. Allir sögðu það sama: nauðga henni. Ég trúði ekki mínum eigin augum og ég get ekki ennþá skilið hvernig þetta er þeirra fyrsta hugsun. Ekki að láta hana vera, eða leyfa henni að sofa, heldur að nauðga henni.
      Einu rökin sem að mér finnst líkleg til að útskýra þetta er léleg fræðsla. Þetta hljóta að vera fávitar, einhverjir sem vita fátt til ekkert um hvað þeir eru að segja, það þarf að fræða fólk, SÉRSTAKLEGA unga stráka í þessum heimi. Svona hugsun er allt of algeng.

Ef ég má koma máli mínu að kvenréttindum og femínistum í þessu samhengi, þá er oft litið á þetta orð "femínisti" á mjög neikvæðann hátt. Af hverju? Af því að einhverjar fáar sem eru svona "karlhatarar" hafa talað hærra en aðrir. Mér finnst þetta algjör synd þar sem að þýðingin á þessu orði er: Einhver sem vill jafnrétti. Ég er mikið og oft á netinu og ég sé af og til ummerki um óréttlæti. Eitt að því sem fer sérstaklega í taugarnar á mér eru "brandarar" sem segja að konurnar eiga heima í eldhúsinu. Þetta hefur verið vinsælt í mörg ár út af fortíð kvenna sem voru heimavinnandi um 1960 eða fyrr. Eitt af því sem að ég tek eftir með svona "steríótýpur" er að það er lítið um þær fyrir karlmenn. Alltaf er talað um hvernig við konurnar getum betrumbætt okkur en karlarnir, óh þeir eru alltaf fullkomnir eins og þeir eru. Þetta kalla ég óréttlæti og misrétti.
Fyrir nokkrum vikum þá fór leikkonan Angelina Jolie í aðgerð til að taka bæði brjóstin sín út af mögulegu brjóstakrabbameini. Það voru um 90% líkur að hún myndi fá veikina þannig að hún tók þá ákvörðun að fjarlægja áhættuna. Þetta fannst mér alveg ótrúlega hugrakkt af henni, sérstaklega af því að hún er leikkona sem er fræg fyrir að vera kynþokkafull. En nú flækjast málin, á netsíðunni Twitter tóku menn (flest karlar en alveg örugglega ekki einungis þeir) það að sér að tjá sig um málið. Að skrifa hluti eins og: RIP Angelina Jolie's rack (hvíldu í friði), og fleira í þeim dúr. Aftur trúði ég ekki mínum eigin augum og var í stórri neitun yfir því að fólk hugsaði svona. Enda var ein stelpa sem að gerði mjög góða athugasemd við þessu: Að þetta væri gott dæmi um það hvernig karlmenn gera ráð fyrir að þeir hafi einhver réttindi yfir líkama kvenna. Að þeir geti gert ráð fyrir að brjóst eru eingöngu fyrir þá, og ég man eftir einu líka: "Brad Pitt mun fara ríða fóstrunni eftir þetta". NEI. Hættið! Þetta er ekki í lagi!!! Að gera ráð fyrir því að einhverjum mun ekki líka við konuna sína útaf því að hún er ekki með brjóst er fáránlegt. Og að segja að þetta sé "sóun" á góðum brjóstum er svo út í hött, eins og þeir eigi að fá að vera með í að velja hvort að brjóstin verði eða fari.

Ég er mjög ósátt við samfélagið okkar í dag og vona stórlega að þetta mun breytast í framtíðinni, því við konur erum ekki eign karlmannanna og líkamar okkar eru ekki fyrir þá að eiga eða nota að þörf. Ég veit að umræðan breyttist hratt hér, en ég mun aldrei hætta að berjast fyrir rétti mínum og annarra, og ég mun berjast gegn svona hegðun þar til ég get ekki barist meir.

þriðjudagur, 7. júní 2011

Le Francé

Kæru bloggarar og lesendur.
Það styttist óðum í æsispennandi Frakklandsferð! Ég hlakka svo til að sjá systur mína aftur og að fara á öll söfnin að skoða myndir og styttur sem ég lærði svo mikið um síðastliðinn vetur. Ég vona að þetta leiðinda kvef fari úr mér sem fyrst svo að ég þurfi ekki að vera að snýta mér úti í Frakklandi. Sumarfríið er ekki búið að vera æðislegt en samt nú alveg skemmtilegt, þrátt fyrir allt. Ég fer að vinna eftir nokkrar vikur (hlakka dáldið til) og svo er smá sumarfrí eftir og eftir það byrjar skólinn bara aftur! :O.
Þetta nægir í bili,
-Eyrún

sunnudagur, 13. febrúar 2011

Ein ótrúlega flott blómamynd frá 2010.


Ótrúlega flott, hvort sem að þið sjáið það óskýrt eður ei.
-Eyrún

föstudagur, 11. febrúar 2011

Meiri skriðdýr!!!

Slímmöndrur: .Mjög stór "bullfrog" (sem ég man ekki alveg hvað heitir):
: froskdýr sem sjást ekki mjög vel...

Vonandi nutuð þið myndanna.
-Eyrún ;)

Skriðdýrasýningin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Og þetta eru nokkur dýr sem voru í fjöl og hús... það koma fleirri í næsta pósti ;)
(sem verður eftir nokkrar mín.... ;))


-Eyrún

sunnudagur, 6. febrúar 2011

Menntaskóli

Já þá er maður bara kominn í menntaskóla og er á annari önn. Lífið er gott... Það er allt frekar upptekið núna, ritgerð og próf, tómstundir og langir skóladagar... En þetta gengur allt sæmilega vel upp. Ég hef fengið frekar góðar einkunnir úr þeim prófum sem ég hef tekið á netinu og ég býst ekki við neinu öðru úr prófunum sem ég tók í skólanum (sem ég er ekki búin að fá úr).
Stundataflan mín er öll út í götum, á einum degi fer ég í skóla kl. 8:10 og er ekki búin fyrr en 15:25 en er samt bara í þrem tímum allan daginn!!! Mánudagar og þriðjudagar eru verstir. Þeir eru til 15:25 (+fimmtudagar) og á mánudögum er leikfimi svo að ég er með annan bakpoka + allar bækurnar í þeim 4 fögum sem ég er í þann sama dag. Þriðjudagar eru eiginlega eins, taskan mjög þung, þ.e.a.s. 5 möppur! Með söngmöppunni minni af því að ég fer í söng beint eftir skóla. Miðvikudagar eru bara fínir, það er þægilegt að hafa tvo erfiða daga og svo næsta dag þar sem ég þarf ekki að mæta í skólann fyrr en klukkan 10. En svo mæti ég árla morgunns á fimm. og fös. En er búin á sama tíma á föstudögum og miðvikudögum sem er 13:50 (þá næ ég strætó kl.14!!). Strætóinn sem ég tek er 14, hann kemur hjá verzló (kringlunni) sem er endastöðin. Frá klukkan 8-10 kemur hann á kortersfresti en frá 10-14 kemur hann á hálftíma fresti (þ.e.a.s. 45 min yfir og 15 yfir) en frá 14-... (er ekki viss, er aldrei það lengi) á kortersfresti. Það er frekar þægilegt. Ég næ strætó klukkan tvö á mið og fös. En ég næ honum 15:45 á mánudögum og fimmtudögum. (á þriðjudögum þá tek ég 14 í hina áttina af því að ég er þá nýkomin úr söng...)


Hrikaleg gaman að "blogga" aftur og láta ALLA (þ.e.a.s. fjölskylduna mína :Þ) vita af því hvað ég er búin að vera bralla, af því að ég hef ekki tíma til þess að segja þeim frá því sjálf ;)

(ég fór í fjölskyldu og húsdýragarðinn í gær og sá skriðdýrin, það var svo gaman!!)

Ykkar yndæla
-Eyrún

sunnudagur, 25. júlí 2010

Hjólað um Suðurnes, svalir og vinna.

Síðustu helgi fór ég með fjölskyldunni minni og mörgum úr mömmu- ætt í hjólaferð um suðurnesin. Við hjóluðum frá Keflavík að Sandgerði (minnir mig :S) og þaðan að Garðskaga og Garðskagavita. Þar stoppuðum við dáldítið lengi og ég fór upp í hæsta vitann á landinu! jei! Leiðin að Garðskaga var frekar erfið, við stoppuðum oft á leiðinni og það var dálítill mótvindur mest alla leiðina. Leiðin til baka hinsvegar, aftur til Keflavíkur var mikið léttari. Beinn vegur og góður, heitt úti og svolítið logn. Hinsvegar þegar við komum heim (dauðþreytt) sá fjölskyldan mín að þau voru brennd, (ég hló nú bara dálítið) seinna þetta sama kvöld ætlaði ég að skella mér í bað, tek ég þá ekki eftir því að kálfinn minn, sá vinstri, er ótrúlega sólbrenndur að aftan. Frá sokkafari að löngu íþróttabuxna fari. Þetta var ég EKKI glöð með. Ég hafði náttúrulega ekki sett neinn sólarvörn á mig allann daginn og ekki dottið það einu sinni í hug. Við vorum allann daginn úti í sólinni að hjóla og ég brann í heildina á: kinnunum, nefinu, kálfunum, höndunum og handarbökunum. Samt var ég alveg hvít frá hnjám upp að hálsi. En ég fékk engar harðsperrur eftir hjólið (sem ég var dáldið hissa með) og þetta var alveg æðislega skemmtileg ferð.

Núna erum við fjölskyldan búin að smíða fallega pallinn okkar í garðinum. Og mamma og pabbi voru að klára þrepin og grunninn á svölum sem leiða upp í stofu. Þau eru búin að vera svo dugleg (ég er ekki búin að hjálpa þeim mjög mikið samt :S) og þau eru alveg búin að festa stigann og handrið við verðandi pallinn. Vonandi verður það búið fljótlega.

Jæja, þá komum við að leiðinlegasta umræðuefninu í lífi mínu akkúrat núna. Sumarvinnan. Ég sótti um starf á mörgum stöðum en fékk aðeins svar frá tveimur, bæði neitanir. En ég var með tryggða vinnu í TBR sem leiðbeinandi á borðtennisnámskeiði. Fyrst ég er að æfa þar og ég vann þar í fyrra var ég viss um að ég fengi starfið. En nákvæmlega eins og í fyrra mætti enginn og skráði sig enginn. Það sem við erum að gera í vinnunni er að æfa..... Gaman.....EKKI! Mér finnst alls ekki skemmtilegt í vinnunni að beinlínis sitja bara og gera ekki neitt. Suma daga mætir eiginlega enginn og við förum bara fyrr heim! Ég veit að margir eiga eftir að segja að ég sé ótrúlega heppin og bla,bla,bla en ég er það ekki. Ég mundi skipta við flest fólk með vinnur ef að þau væru þá ekki að vinna í fiski (eins og vinkona mín gerði fyrstu vikur sumarsins) eða unglingavinnunni. Náttúrulega er þetta bara unglingavinnan, ég fæ það sama borgað en ég þarf bara ekki að vera að reita arfa eða neitt þannig.

En nóg af þessu leiðinda tuði, þú nennir ekkert að vera að lesa (heyra) mig tuða endalaust og út í bláinn. Síðastliðnar vikur er ég búin að vera að læra spænsku í tölvunni á forriti sem heitir Rosetta Stone version:3. Mér gengur mjög vel og það er alveg ótrúlega skemmtilegt! Erfitt en skemmtilegt. Var ég búin að segja að ég sé komin inn í MH? Þá veistu það allavega núna. Málabraut. Mér minnir að ég valdi frönsku og spænsku sem þriðja og fjórða tungumál, en ég er ekki alveg viss hvort ég valdi spænsku eða þýsku...... Allavega, vinkona mín komst inn í Verzló og við vorum að tala um það um daginn hvað það var mikill munur á kostnaði á skólum. Hennar skólagjöld eru um 91.000! á meðan mitt er um 7000. Hvernig stendur á þessu? Ja hennar skóli er nýrri og þetta er líka með nemenda einhverju og einhverju bulli. Ég þarf kanski að fara að hlusta á hana meira þegar hún er að tala.... eh....Hvað með það. Skólasetningin er 23.ágúst minnir mig og þá fæ ég stundatöfluna og er sínt skólastofurnar. Ég hlakka hinsvegar ekki til busadagsins, meðað við það sem systir mín sagði mér frá sínum þá varð ég dáldið hrædd (hún var í MH líka).

En svona er það. Ég ákvað að setja smá spænsku í þetta blogg, bara til þess að enda það dálítið:

Hola! ¿Que es está?
Hola! ¿Que es llama?

Adios!
-Eyrún